Skip to main content

Færeyjaferð 2014

FÆREYJAR 2014

Það var á síðasta hausti að nokkrir félaga sátu saman í kaffihittingi og fóru að ræða saman um að skreppa til Færeyja eina ferð með Norrænu. Við gætum kannski beðið um tilboð fyrir ca 10 húsvagna.

Ómar og Dóra no 8 fóru í það að kanna verðið og skemmst er frá því að segja að þau máttu fara 3 ferðir á skrifstofu Austfars því alltaf bættust áhugasamir í hópinn.

Um áramót voru 25 húsvagnar skráðir í ferðina og ákveðið að leggja frá landi til Færeyja 26. Júní 2014.

Þegar leið að þessum tíma var boðað til undirbúningsfundar  þar sem farið var yfir ýmis atriði varðandi ferðina.

Þriðjudaginn 24. Júní fóru ferðalangar að safnast saman á Seyðisfirði  í góðu veðri og á fimmtudagsmorgun voru allir mættir tímanlega niður á bryggju.

Dóra útbýtti káetumiðum og flestir fengu klefa með sínum maka. Þegar komið var um borð voru gerðar nauðsynlegar ráðstafanir í Frihöfninni. Um kvöldið mættu síðan allir og gerðu kvöldverðarhlaðborðinu góð skil.

Á leiðinni yfir hafið var horft á fótboltaleik, hlustað á trúbador sem spilaði og söng eða einfaldlega lagst í koju. Enginn var sjóveikur enda gott í sjóinn.

Til Þórshafnar í Færeyjum var komið um klukkan 3 að nóttu og var ekið rakleiðis á tjaldsvæði enda flestir orðnir syfjaðir.

 

Föstudagurinn 27. Júní.  

Allir tóku því rólega þennan dag. Röltu um bæinn,  skruppu í Bónus eða SMS. Einnig fóru margir til Kirkjubojur.

Í SMS ( sem er verslunarmiðstöð)var stórt skilti sem á stóð HM og nokkrar konur urðu himinlifandi, rifu upp kortin sín og ætluðu að gera góða verslun þar. En þá kom í ljós að þarna inni voru bara karlar að horfa á fótboltaleik. Þetta var semsagt smámiskilningur ekki verslun HogM heldur heimsmeistarakeppnin í fótbolta.

Um kvöldið elduðu nokkrir karlmennirnir siginn fisk í eldhúsi tjaldsvæðisins, til mikillar furðu  erlendra ferðamanna sem skildu ekki í lyktinni af þessum mat þeirra.

 

Laugardagurinn 28. Júní 

Þetta var mikill ferðadagur.  Farið yfir á Eysturey og Norduey. Skoðuðum Gjovg, lentum í færeysku brúðkaupi í Fuglafirði, og fleira og fleira.

Um kvöldið var ekið til Vestmanna þar sem átti að gista næstu nótt.

 

 

 

Sunnudagur 29. Júní

Þennan dag var siglt í Vestmannabjörgin. Frábær ferð og allir voru himinlifandi með hana.

Komið var aftur að landi eftir hádegi. 

Þarna kvöddu áhafnir 8 og 146 okkur því þau ætluðu um kvöldið að sigla til Danmerkur.

 

 

Um kl 18.00 var okkur boðið á konsert í Vestmannakirkju þar sem kór kirkjunnar söng. Eftir konsertin buðu Færeyingar okkur í súpu, kaffi og kökur.

Frábær gestrisni hjá þeim.

 Vestmannakórinn er á leið til Íslands og ætla að syngja í Kópavogskirkju þann 13. Júlí kl. 11.00.

Við ætlum að endurgjalda gestrisni þeirra og bjóða uppá veitingar eftir messu.

 

Mánudagur 30. Júní

Mikill ferðadagur hjá öllum. Vogey, Suðurey, Saksundalur, Runavik, Æðuvík,Klakksvik, Þórshöfn. 

Við höfðum beðið tjaldvörðinn í Þórshöfn  að taka frá stæði fyrir okkur á þriðjudeginum og þegar formaðurinn kom í tjaldmiðstöðina og lét vita að margir væru komnir og kannski kæmu fleiri um kvöldið. Tjaldvörðurinn leit á hana og sagði: Er komin þriðjudagur hjá ykkur? En svarið sem hann fékk var að við hefðum saknað hans svo mikið.

 

 

 

Þriðjudagur 1. Júlí

Það hellirigndi þennan morgun og við sem ætluðum að grilla saman um kvöldið.

Á tjaldsvæðið var nú mættur furðulegur ferðalangur á leið til Íslands. Maður á traktor með húsið sitt aftaní og ætlaði að vera sex vikur kringum landið. Mikið var spáð í þennan ferðalang og farartæki hans. Allir voru sammála um að þeir vildu ekki lenda fyrir aftan hann enda hámarkshraði sem hann kemst aðeins 25 km.

Áfram var farið í skoðunarferðir og seinnipartinn fóru allir að safnast saman aftur á tjaldsvæðinu og viti menn, það stytti upp og um það leiti sem farið var að grilla var komið gott veður aftur og allir borðuðu úti . Setið var frameftir kvöldi útivið og spilað og sungið.

 Miðvikudagurinn 2. Júlí.

Heimferðardagur og það rigndi eldi og brennisteini þegar við vöknuðum. Sjórinn var úfinn og allt rennandi blautt. En uppúr hádegi fór að birta og sólin fór að skína. 

Allir mættir á kajann kl. 16.00 og siglt var af stað kl. 18.00. Allir mættu á hlaðborðið kl. 19.30 en eftir það fóru flestir að týnast í klefana sína.

Óróleg nótt með veltingi og látum. Heldur lítið var sofið fyrr en tók að lægja seint um nóttina. Eldsnemma voru allir vaktir og þurftu að rýma klefana sína tveimur klukkustundum áður en komið var í höfn á Seyðisfirði. Þangað var komið rúmlega 9.00 að íslenskum tíma.

 

Á Egilsstöðum kvöddust allir eftir mjög ánægjulega ferð, við vorum ótrúlega heppin með veður í Færeyjum og ekkert kom uppá sem var til vandræða. 

Áhafnir 25 húsvagna hófu ferðina og voru ferðafélagar á aldrinum 47 – 83 ára.

 

Að lokum má þess geta að í Norrænu á leiðinni út hittum við áhafnir fjögurra húsvagna sem voru á leið til Danmerkur og áður en samflotinu lauk voru þau búin að skrá sig í Húsvagnafélagið.